Dansstúdíó Emelíu er verkefni á vegum Emelíu Antonsdóttur Crivello.
Dansstúdíóið býður upp á skemmtileg og fjölbreytt dansnámskeið á Fljótsdalshéraði og einnig á Reyðarfirði. Námskeiðin eru aðallega haldin á sumrin og þá auglýst með fyrirvara.
Emelía hefur að eigin frumkvæði haldið námskeið í listdansi reglulega á Fljótsdalshéraði frá árinu 2007 og á Reyðarfirði frá árinu 2012.
Nokkur hundruð nemendur hafa stundað námskeiðin á þessum árum, allt frá 3 ára börnum upp í fullorðna. Upphaflega var Emelía eini danskennari verkefnisins en á síðustu árum hafa yfir 15 gesta- og aðstoðarkennarar komið að kennslu á námskeiðunum.
Dansstúdíó Emelíu hlaut styrk frá Menningarráði Austurlands til að starfa árin 2012 og 2014. Verkefnið hlaut jafnframt styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands árin 2015 og 2016. Fljótsdalshérað hefur stutt við bakið á verkefninu og hlaut verkefnið styrk úr menningarsjóði bæjarfélagsins árin 2016 og 2017. Fjarðabyggð hefur jafnframt stutt við bakið á verkefninu frá árinu 2012 í formi húsnæðis og veitti verkefninu einnig aukalega menningarstyrk árið 2016. Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs/Sláturhúsið hefur veitt verkefninu ýmsan stuðning í gegnum árin í formi auglýsinga, internets, aðstöðu og fleira. Við erum innilega þakklát fyrir alla þá styrki og stuðning sem verkefnið hefur fengið!
Ekki hika við að senda mail á dansstudioemeliu@gmail.com ef þú hefur spurningar um dansstúdíóið.
Emelía Antonsdóttir Crivello fæddist árið 1987 á Egilsstöðum.
Emelía stundar nú tveggja ára Mastersnám í sviðslistakennslu við Listaháskóla Íslands. Hún útskrifaðist jafnframt vorið 2015 af Sviðshöfundabraut Listaháskólans með BA gráðu í sviðslistum.
Emelía hefur frá unglingsaldri kennt fjölmörgum dans á Austurlandi og í Reykjavík. Auk þess að kenna hjá Dansstúdíói Emelíu hefur hún m.a. kennt dans hjá Fimleikadeild Hattar, Grunnskólanum á Egilsstöðum, Grunnskólanum í Hallormsstað, Listahóp vinnuskólans á Egilsstöðum, Vogaskóla, Akurskóla, Dalskóla og Háskóladansinum. Árið 2014 hlaut hún viðurkenningu úr Þjóðhátíðarsjóði Rótarýklúbbs Héraðsbúa fyrir frumkvöðlastarf sitt í listdanskennslu og listrænni tjáningu á Fljótsdalshérði.
Emelía lærði dans aðallega í Klassíska Listdansskólanum, en þaðan útskrifaðist hún af nútímalistdansbraut vorið 2009. Sama ár var hún tilnefnd til Grímuverðlaunanna sem danshöfundur ársins. Einnig hefur Emelía sótt fjölmörg danstengd námskeið, m.a. í Listaháskóla Íslands, tvívegis í sumarskóla Trinity Laban í London, Martha Graham skólanum í New York, ýmis námskeið á Dansverkstæðinu, Kramhúsinu, Dansstúdíó World Class, Dans Brynju Péturs, Listdansskóla JSB, Spiral Dansflokknum og fleiri stöðum. Síðustu ár hefur Emelía færst yfir í leiklistina í listrænum áhuga og var útskriftarverk hennar úr Listaháskóla Íslands, Baráttan heldur áfram, sýnt í Þjóðleikhúsinu vorið 2015. Áhugi hennar og metnaður fyrir danskennslu verður henni þó ávallt mikilvægur og er draumurinn sá að Dansstúdíó Emelíu haldi áfram starfi sínu um ókomin ár.